Stjórn Lífeyrissjóðs Rangæinga

Hér er að finna upplýsingar um núverandi stjórn og varamenn eins og hún er skipuð eftir ársfund sjóðsins sem haldinn var þann 13. maí 2022.

Stjórn sjóðsins skipa Margrét Jóna Ísólfsdóttir, Heimir Hafsteinsson, Guðmundur Svavarsson og Írena Sif Kjartansdóttir.

Varamenn í stjórn eru Pétur Magnússon og Drífa Hjartardóttir.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd sjóðsins er þannig skipuð:

  • Jón H. Sigurðsson, formaður
  • Guðmundur Einarsson
  • Heimir Hafsteinsson

Framkvæmdastjóri og endurskoðandi

Framkvæmdastjóri sjóðsins er Þröstur Sigurðsson og endurskoðun sjóðsins er í höndum Deloitte.

Sagan

Lífeyrissjóður Rangæinga var stofnaður 12. janúar 1971 af samtökum vinnuveitenda í Rangárvallasýslu, iðnaðar- og verkamannadeild Verkalýðsfélagsins Rangæings og Bílstjórafélagi Rangæinga. Fyrsti formaður stjórnar var kjörinn Hilmar Jónasson en aðrir í stjórn voru Garðar Björnsson, Hilmar Jónsson og Páll Björnsson. Filippus Björgvinsson var framkvæmdastjóri sjóðsins um langt skeið. Hann lét af störfum í árslok 2001 eftir rúmlega 25 ára starf í þágu sjóðsins. Sjóðfélagar eru um 11.000 og stærð sjóðsins rúmlega 16 milljarðar króna.

Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 á grundvelli samkomulags stéttarfélaga og atvinnurekanda frá 19. maí 1969 og 12. desember 1995 og tryggir þau lágmarksréttindi sem þar greinir. Aðildarfélög að sjóððnum nú eru Verkalýðsfélag Suðurlands, FIT Félag iðn- og tæknigreina og Samtök atvinnulífsins. Þeir sem eru að vinna undir samningum og á samningssvæði þeirra greiða til sjóðsins á grundvelli skylduaðildar. 

Frá árinu 1978 hefur sjóðurinn haft starfsstöð og aðstöðu í Verkalýðshúsinu, Suðurlandsvegi 3, Hellu. Eignastýring Arion banka annast rekstur og eignastýringu Lífeyrissjóðs Rangæinga og býður upp á þjónustu fyrir sjóðfélaga og launagreiðendur.

Réttindaávinnsla

Í upphafi byggði Lífeyrissjóður Rangæinga réttindagrunn sinn á stigakerfi þ.e. greiðslur sjóðfélaga breyttust í réttindi eða stig samkvæmt reiknireglum jafnrar réttindaávinnslu.

Árið 2005 og fyrr spratt upp mikil umræða um samræmingu réttindakerfa lífeyrissjóðanna í landinu en þeir höfðu ýmist byggt á stigasöfnun þ.e. jafnri réttindaávinnslu og eða aldurstengdri réttindaávinnslu þar sem iðgjaldagreiðslur vigtuðu mismikið í réttindum eftir aldri viðkomandi. Mest vigtuðu þau iðgjöld til réttinda þar sem sjóðfélagi var sem yngstur.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag í október 2005 um tilhögun réttinda við breytingar á réttindaávinnslu yfir í aldurstengd réttindi. Megininntak samkomulagsins fólst í því að tryggja einstaklingum rétt til þess að greiða áfram iðgjöld til þess sjóðs sem viðkomandi var í ef hann stæði frammi fyrir því að glata umtalsverðum réttindum við að færast til sjóðs sem veitir honum einungis aldurstengd réttindi. Árið 2006 var gerð breyting á réttindakerfum velflestra stigasjóða á landinu þ.á.m. Lífeyrissjóðs Rangæinga.

Lífeyrissjóður Rangæinga tók upp blandaða leið jafnrar og aldurstengdrar réttindaávinnslu árið 2006. Réttindi til lífeyris eru reiknuð í krónum og ráðast af því iðgjaldi sem greitt er til sjóðsins hverju sinni. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til sjóðsins.

  • Aldurstengd réttindaávinnsla: þeir sjóðfélagar sem voru yngri en 25 ára þann 1. ágúst 2006 færðust strax í aldurstengda réttindaávinnslu.
  • Jöfn réttindaávinnsla eða blönduð leið: aðrir eldri sjóðfélagar færast í jafna réttindaávinnslu eða blandaða leið allt eftir því hvernig forsaga viðkomandi sjóðfélaga er hjá sjóðnum. Nánar er fjallað um grundvöll lífeyrisréttinda í 10. kafla samþykkta sjóðsins