Hækkun á mótframlagi atvinnurekenda

Sjóðfélögum Lífeyrissjóðs Rangæinga býðst nú að nýta hluta af skylduiðgjaldi sínu til séreignarmyndunnar. Ef ekkert er valið fer öll hækkunin í samtryggingu.

Með kjarasamningi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) frá 21. janúar 2016 var samið um að hækka framlag atvinnurekenda úr 8% í 11,5% í áföngum. Hækkað mótframlag er nú hluti lágmarksréttinda þeirra sem fyrrnefndir kjarasamningar ná til. Í sama samningi er kveðið á um heimild sjóðfélaga, í viðkomandi lífeyrissjóðum, til að ráðstafa þessu viðbótarframlagi að hluta eða að öllu leyti í bundna séreign, eða svokallaða tilgreinda séreign.

Þann 1. júlí 2017 hækkaði mótframlag atvinnurekenda úr 8,5% í 10% og frá 1. júlí 2018 mun mótframlagið hækka í 11,5% en framlag launamanna verður óbreytt 4%.

Lífeyrissjóður Rangæinga hvetur sjóðfélaga til að kynna sér þær reglur sem gilda um tryggingavernd í samtryggingu annars vegar og þær reglur sem gilda um tilgreinda séreign hins vegar. Ásamt því að kynna sér áhrif þess að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi til séreignarmyndunnar. Upplýsingar um ofangreint má nálgast í samþykktum sjóðsins, tilkynningareyðublaði Lífeyrissjóðs Rangæinga og hjá starfsmönnum í lífeyrisþjónustu Arion banka í síma 444 7000 og á lifeyristhjonusta@arionbanki.is.

Lífeyrissjóður Rangæinga mun taka við iðgjöldum samkvæmt kjarasamningi ASÍ og SA og gefa sjóðfélögum sínum kost á að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreign. Lífeyrissjóður Rangæinga hefur af þessu tilefni gert samstarfssamning við Frjálsa lífeyrissjóðinn um móttöku og ávöxtun iðgjalda sjóðfélaga sem ráðstafa á í tilgreinda séreign. Ráðstöfun iðgjaldanna til Frjálsa lífeyrissjóðsins felur í sér að hann ber ábyrgð á rekstri tilgreindrar séreignar og ávöxtun iðgjaldanna.

Sjóðfélögum er jafnframt heimilt, samkvæmt gildandi lögum, að semja við annan lífeyrissjóð eða til þess bæran aðila um vörslu iðgjalds í tilgreinda séreign.

Ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign

Ef sjóðfélagi óskar eftir því að greiða hluta af skylduiðgjaldi í tilgreinda séreign þá þarf að fylla út tilkynningareyðublaðið hér fyrir neðan og senda til Lífeyrissjóðs Rangæinga. Hægt er að senda á netfangið lifeyristhjonusta@arionbanki.is eða í pósti til Lífeyrisþjónustu, Túngötu 3, 580 Siglufirði.

Ráðstöfun í tilgreinda séreign